Um efnisskrána:

 

Antonín Dvořák og Johannes Brahms voru samtíðarmenn og traustir máttarstólpar rómantísku tónlistarinnar á nítjándu öld. Báðir sóttu innblástur í mið-evrópska tónlistarhefð, í tónlist beggja koma fram öll einkenni rómantíkurinnar og hún endurspeglar gjarnan hugarástand tónskáldsins, tjáir tilfinningar, ástríður, andrúmsloft og jafnvel staðhætti En þar sem tónlist Dvořáks ber oft mjög sterk þjóðleg einkenni frá heimahögunum þá er Brahms íhaldssamari, byggir frekar á klassískum hefðum. Og sem persónur voru þeir félagar ansi ólíkir. Piparsveininum Brahms, sonur kontrabassaleikara og saumakonu, var heldur lítið fyrir að ferðast, hélt sig að mestu leyti við Hamborg þar sem hann fæddist og bjó til þrítugs og Vínarborg þar sem hann bjó það sem eftir var ævinnar. Sumarleyfi (mikið til vinnuferðir, að því er virðist) voru reyndar tekin í Sviss og á Ítalíu auk Austurríkis, en doktorsnafnbót frá Cambridge afþakkaði hann vegna þess, að þá þyrfti hann að leggja land undir fót og ferðast alla leið til Englands. Hann þáði hins vegar doktorsnafnbót frá Háskólanum í Breslau! Betra en ekkert. Dvořák, sonur slátrarans og kráareigandans í þorpinu Nelahozevez í Bæheimi, varð hins vegar heimsmaður, hann ferðaðist víða og oft til Englands, þar sem hann, ólíkt Brahms, þáði heiðursdoktorsnafnbótina frá Cambridgeháskóla. Árin 1892-5 var hann rektor við Tónlistarháskólann í New York og hljómsveitarstjóri New York Philharmonic Society. Þeir Brahms og Dvořák voru góðir vinir og haft er eftir Brahms, sem var reyndar ekki þekktur fyrir sjálfstraust,  þegar hann hafði heyrt sellókonsert Dvořáks: „Hvernig gat það farið framhjá mér, að hægt væri að semja sellókonsert eins og þennan? Hefði ég bara vitað það, hefði ég samið einn fyrir löngu“

Strengjakvintettar Brahms eru tveir. op. 88 og 111. Þeir eru samdir, líkt og strengjakvintett Mozarts fyrir tvær fiðlur, tvær víólur og selló. Víólurnar tvær er auðvelt að tengja við tónlist Brahms. Ekki einungis vegna víólusónatanna tveggja heldur vegna þess hversu oft Brahms gerir víólunum hátt undir höfði og hvernig mjúkur og hlýlegur hljómur víólunnar er hluti af hinum dæmigerða „Brahms-hljómi“. Kvintett Brahms op. 111, kallaður  Prater-kvintettinn, var saminn árið 1890 og frumfluttur í Vínarborg í nóvember sama ár við mikla hrifningu. Brahms hafði hugsað sér kvintettinn sem sitt síðasta sköpunarverk en þegar til kom átti hann eftir að semja nokkur píanóstykki auk m.a. fjögurra kammerverka fyrir klarinettu, tríó op. 114, kvintett op. 115 og tvær sónötur op. 120a,b.

Dvořák samdi þrjá strengjakvintetta og er Es-dúr kvintettinn sá síðasti þeirra. Hann var saminn árið 1893, sama ár og Ameríski kvartettinn B 179 og Sónatínan B 183. Á þessum tíma starfaði Dvořák í Bandaríkjunum og bera öll verkin þess merki. Hann sótti Indíána í Iowa heim í leit að stefjum til að nota í verk sín á þessum tíma. Vel má greina þjóðleg áhrif frá vesturheimi í þessum verkum líkt og bæheimskra áhrifa gætir í fyrri og seinni verkum. Annað sem einkennir hin „amerísku“ verk Dvořáks er  nokkuð einfaldari tónn en í fyrri kammerverkum og þeim er hann samdi eftir heimkomuna til Bæheims. „Ég ætlaði mér að semja tónlist sem væri reglulega lagræn og einföld“ er haft eftir Dvořák. Einfaldleikinn í kvintettinum B 180 virðist því vera meðvitaður.  Vel má telja verkið eins konar divertimento, fyrst og fremst ætlað hlustendum til skemmtunar og yndisauka.

                                                                                                           Valdemar Pálsson
      (Sig. St. breytti síðustu 5 línum kaflans um Brahms vegna þess að á síðustu stundu var ákveðið að flytja op. 111 í stað op. 88)