Um tónskáldið

Á þessu ári eru líðin 100 ár frá fæðingu Astor Pantaleón Piazzolla, tónskálds, bandoneón-snillings, útsetjara og hljómsveitarstjóra og því við hæfi að minnast hans á þessum vettvangi. Hann fæddist 1921, einkasonur ítalskra innflytjenda til Argentínu. Fjögurra ára fluttist fjölskyldan til New York og þar kynntist hinn ungi Astor tónlist þess tíma, jazztónlist og klassískri tónlist. Lífsbaráttan í stórborginni var hörð, foreldrarnir þurftu að vinna langan vinnudag og snáðinn var mikið einn. En heima fyrir var til plötuspilari og plötur með klassískri tónlist, jazzi og argentínsku tangógoðunum Carlos Gardel og Julio de Caro. Fyrsta bandoneónið, garm sem faðir hans rakst á í verslun veðlánara, eignaðist Piazzolla 8 ára gamall. Hann hóf að læra á hljóðfærið og 1934 fékk hann kærkomið tækifæri til að leika fyrir Carlos Gardel, sem gaf honum aukahlutverk í kvikmynd um sig og bauð honum að auki að leika með hljómsveit sinni á tónleikaferðalagi 1935. Því var ekki vel tekið heima fyrir, enda Astor þá aðeins 14 ára gamall. Það var líka eins gott því Gardel og öll hljómsveit hans fórst í flugslysi í þessari ferð.

 

Fjölskylda Piazzollas sneri heim til Argentínu 1936 og tveimur árum seinna fékk hann fyrsta starf sitt í hljómsveit. Það var í hljómsveit Aníbals Troilos, einni virtustu tangósveit þess tíma. Tekjurnar gerðu honum kleift að sækja tónsmíðatíma hjá Alberto Ginastera, sem kynnti fyrir honum samtímatónskáld eins og Bartók, Stravinsky og Ravel. Hann nam hjá Ginastera næstu 5 árin auk þess að spila hvert kvöld í tangóklúbbum Buenos Aires. Piazzolla hætti í hljómsveit Troilos 1944 og stofnaði sína eigin sveit, svokallaða orquesta típica. Þannig  tangósveit var jafnan skipuð 3-4 fiðlum, stundum víólu og sellói, 2-3 bandoneónum, píanói og kontrabassa. Sveitin starfaði til 1950 en þá fór Piazzolla að sökkva sér í stærri tónsmíðar og jazz. Hann sneri næstum baki við tangótónlistinni og fór auk þess að læra hljómsveitarstjórn. 1953 sendi hann, að áeggjan Ginasteras, tónverk í keppni í Buenos Aires. Hann vann til verðlauna, sem voru ekki af verri endanum: styrkur til að stunda nám í tónsmíðum í París hjá Nadiu Boulanger. Þangað kom Piazzolla 1954 og var þess fullviss að framtíð hans sem tónlistarmanns lægi í klassíska geiranum. Boulanger var greinilega ekki sannfærð en þegar hún heyrði hann leika tangóana sína varð hún frá sér numin af hrifningu (og þurfti víst mikið til) og hvatti hann til að halda áfram á sömu braut. Tónsmíðanámið hjá Boulanger tók mið af þessu og tangótónlistin fékk sinn sess við hliðina á klassískum fræðum og kontrapunkti. Í kjölfarið varð nýtt tónlistarform til, ”nuevo tango”.  Form þar sem merkja mátti áhrif frá jazzi, vestrænum klassískum tónlistarformum og svo að sjálfsögðu tangótónlist Gardels og Troilos. “Nýi tangóinn” var tónlist fyrir tónleika og klúbba frekar en dansgólfið. Skemmst er frá því að segja að heimsbyggðin tók þessari nýju tangótónlist opnum örmum. Piazzolla ferðaðist með hljómsveitum sínum víða um heim, spilaði á tónlistarhátíðum í tónleikasölum allt frá Carnegie Hall til minnstu jazzklúbba. Hann gerði sjálfur fjölda hljóðritana og það hafa bestu tónlistarmenn heims úr öllum geirum einnig gert.  Vinsældir nýju tangóanna hans Piazzollas eru ótvíræðar a.m.k. í Evrópu og Norður Ameríku. Í heimalandi hans eru skoðanirnar þó skiptar. Meðal harðsnúnustu tangósérfræðinga í Argentínu telst Piazzolla vera villutrúarmaður sem hafi mengað tangótónlistina með framandi áhrifum og saurgað minningu Carlos Gardels. Hins vegar eru þeir sem telja “nýja tangóinn” vera tímabæra endurnýjun og Piazzolla endurreisnarmann sem hafi gefið forminu nýtt líf með nútímalegri umbúðum og hugsun og á sama tíma sýnt eldri meisturum virðingu.

 

Valdemar Pálsson