Um efnisskrána


Finnur Karlsson (f. 1988) nam tónsmíðar við Listaháskóla Íslands (B.A. 2012) og Konunglega danska korservatoríiun (M.A. 2015 og Advanced Poistgraduate 2018). Finnur hefur samið tónverk fyrir hljómsveitir, söngkóra, einleikara, leikhús og kammerhópa. Hann var staðartónskáld Sumartónleika í Skálholtskirkju 2015, og verkið sem pantað var af hátíðinni, Fold, var tilnefnt til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2015 sem verk ársins. Hljómsveitarverk Finns, ‘From My Green Karlstad’, sem pantað var af Kammersveit Reykjavíkur og Elblag Chamber Orchestra var jafnframt tilnefnt til sömu verðlauna 2018. Fjórða hljómsveitarverk Finns, 'till heavens changed have their course’, sem samið var fyrir Dönsku útvarpshljómsveitina var valið sem framlag Danmarks Radio í alþjóðlegu samtímatónlistarkeppninni International Rostrum of Composers í Ungverjalandi 2018. Verk Finns hafa víða verið flutt hérlendis og erlndis, en strangjakvartettinn Hrafnaþing er fyrsta verk hans sem flutt er í Kammermúsíkklúbbnum.

 

Fanny Mendelssohn (1805-1847) var elst Mendelssohn-systkinanna, hæfileikarík eins og bróðirinn Felix og hlaut sömu skólun og hann sem píanisti og tónskáld. Tíðarandinn olli því sennilega að verk hennar voru ekki gefin út—nema fáein undir nafni bróður hennar— en þó samdi hún um 500 „ópusa“ af ýmsu tagi, píanó- og kammerverk en einkum sönglög. Meðal þeirra fáum sem stundum hljóma á tónleikum er Es-dúr strengjakvartettinn sem Strokkvartettinn Siggi kynnir nú í Kammermúsíkklúbbnum.

 

Ludwig van Beethoven (1770-1827) samdi 16 kvartetta á 25 ára tímabili. Hinn síðasti þeirra, í F-dúr op. 135, var jafnframt síðasta verkið sem hann lauk við, fáum mánuðum fyrir dauða sinn í mars 1827. Tímalega fellur op. 135 að sönnu í flokk með öðrum síðustu kvartettum skáldjöfursins, op. 127, 130, 131, 132 og Grosse Fuge, en að flestu öðru leyti sker hann sig frá þeim, svo „sinfónískir“, djúpir og mikilfenglegir sem þeir eru. Op. 135 er minni í sniðum og glaðlegri en þeir, líkt og hinn mikli andi sé loks orðinn sáttur við guð og menn, minnir fremur á fyrstu kvartettana op. 18. Sagt hefur verið að hér taki Beethoven ofan fyrir sínum gamla kennara Haydn, „geri sumt jafnvel og hann, en sumt betur.“
.
Lokakafli kvartettsins ber undarlega yfirskrift: „Der schwer gefasste Entschluss“ (Hin þungtekna ákvörðun) og hægur inngangur kaflans í moll er merktur með spurningunni „Muss er sein?“ (Verður svo að vera?). Síðan tekur við bjartsýnt og glaðlegt Allegro merkt svarinu „Es muss sein!“ (Það verður!). Mjög hefur verið um það deilt hvaða „ákvörðun“ hér sé átt við—einhverja há-heimspekilega spurningu eða ákvörðun um að borga þvottahússreikning. Vísbendingu (sem kemur kvatettnum við) er að finna í bréfi Beethovens til forleggjara síns: „Hér, minn kæri, er nýjasti kvartett minn. Hann verður minn síðasti; og satt að segja hefur hann valdið mér miklum óþægindum. Því ég gat varla fengið mig til að semja lokakaflann. En með því að þú minntir mig á það í bréfum aftur og aftur, þá ákvað ég loks að semja kaflann. Og þess vegna skrifaði ég einkunnarorðin „Der schwer gefasste Entschluss—Muss es sein?—Es muss sein!, es muss sein!“

Sig. St.