Um efnisskrána:

 

Felix Mendelssohn var undrabarn, gaf út sitt fyrsta tónverk 11 ára, en ólíkt Leópold gamla Mozart og fleiri feðrum slíkra barna reyndi bankamaðurinn Abraham Mendelssohn ekki að gera sér barnið að féþúfu — þvert á móti lagðist hann frekar gegn því að sonurinn legði tónlistina fyrir sig uns ljóst varð að honum var full alvara. Reyndar var Felix ekki við eina fjölina felldur; hann fékkst við myndlist, bókmenntir, heimspeki og sögu, og kunni mörg tungumál, auk „nýju málanna“ bæði forngrísku og latínu. Hann var kunnur píanóleikari, tónlistarstjóri og áhrifamaður í tónlist um sína daga. Árið 1829, þá tvítugur, flutti hann Mattheusarpassíu Bachs í Berlín, nær óþekkt tónverk, og telja margir að sá atburður marki upphaf þeirrar Bach-vakningar sem enn sér ekki fyrir endann á. Á stuttri ævi samdi Mendelssohn flestar gerðir tónlistar, en um kammertónlist hans segir alfræðibókin Grove að á því sviði sé Mendelssohn nánast óaðfinnanlegur. Meðal þekktustu kammerverka hans er einmitt d-moll píanótríóið op. 49, hið fyrra af tveimur, sem nú er flutt í fjórða sinn í Kammermúsíkklúbbnum.                                                                                     Sig. St.

 

Johannes Brahms stóð á tímamótum á ferli sínum þegar hann samdi Píanótríóið nr. 2 á árunum 1880 til 1882. Hann hafði þá hlotið alþjóðlega viðurkenningu sem tónskáld, ekki síst fyrir tilstilli fyrstu sinfóníanna tveggja, en sú fyrri hafði valdið honum áratuga kvíða og óvissu. Hann var þessi árin smám saman að kveðja einleikaraferilinn og breytast í tónskáld „í fullu starfi“. Hann lék sjaldnar opinberlega og þeir sem þekktu hann tóku eftir því að fingrafiminni fór hrakandi, enda æfði hann sig mun minna en áður. Clara Schumann, perluvinur Brahms, skrifaði í dagbók sína árið 1882: „Spilamennska Brahms verður sífellt hörmulegri. Nú orðið eru þetta eintómir dynkir, högg og klór“.

   Brahms, sem nú var orðinn miðaldra ráðsett tónskáld, fannst sem sagt tími til kominn að kveðja ímynd hins glæsilega og eftirsótta unga einleikara. Alskeggið myndarlega varð til. Gárungarnir sögðu að Brahms hafi nú breyst frá því að líkjast syni Clöru Schumann yfir í að vera lifandi eftirmynd föður hennar.

   Brahms var ekki þekktur fyrir sjálfsánægju, hvað þá sjálfshól. Sjálfsgagnrýni og jafnvel minnimáttarkennd hafði löngum einkennt afstöðu hans til eigin tónsmíða. En með aldrinum var hann orðinn sáttari við verk sín og var harla ánægður með C-dúr tríóið op. 87 og lá hreint ekki á þeirri skoðun sinni, aldrei þessu vant. Í bréfi til útgefanda síns, Nikulaus Simrock, sagði hann: „Þetta tríó er það fallegasta sem ég hef komið með til yðar og kannski besta verkið sem þér hafið gefið út undanfarin tíu ár.“

   Verkið var frumflutt á Kammermusikabend der Museumgesellschaft í Frankfurt 29. desember 1882. Flytjendur voru Hugo Heermann á fiðlu, Valentin Müller á selló og Johannes Brahms sem lék á píanóið.                                                Valdemar Pálsson