Um efnisskrána

Beethoven var 41 árs þegar hann samdi þetta sjötta, síðasta og mesta píanótríó sitt sem hann tileinkaði vini sínum, nemanda og velgjörðarmanni Rudolf erkihertoga af Habsburg. Erkihertoginn spilaði það fyrstur ásamt strengleikurum beint af handritinu, en Beethoven sjálfur frumflutti það opinberlega á „góðgerðartónleikum“ fyrir stórmenni hinn 11. apríl 1814; var það síðasta sinn sem hann kom fram á kammertónleikum vegna heyrnarleysis. Tónskáldið Louis Spohr, sem heyrði frumflutninginn, lýsti píanóleik Beethovens þannig: „… í forte-köflunum  hamraði þessi vesalings, heyrnarlausi maður svo á píanóinu að það glumdi í strengjunum en í piano-köflunum lék hann svo mjúklega að heilu tónaraðirnar hurfu. Ef maður hefði ekki haft nótunurnar af píanópartinum til hliðsjónar hefði maður misst þráðinn”. En sköpunargáfa  Beethovens og fítonskraftur stóðu óbiluð, enda átti hann mörg stórvirki eftir ósamin vorið 1811 þegar hann lauk við tríóið, m.a. þrjár sinfóníur og sex strengjakvartetta. Erkihertogatríóið ljómar af krafti og glæsileik, líkt sinfóníu að gerð og áhrifum þótt ekki sé samið fyrir nema þrjú hljóðfæri. Enda er það í röð allra vinsælustu verka sinnar tegundar og var, ásamt Silungskvintetti Schuberts, flutt á fyrstu tónleikum Kammermúsíkklúbbsins í Melaskólanum 7. febrúar 1957. Flytjendur þá voru Árni Kristjánsson, Björn Ólafsson og Einar Vigfússon. Nú er það flutt í níunda sinn á vegum klúbbsins.

Johannes Brahms (1833-1897) var ekki byltingarmaður í tónlist, heldur stóð hann föstum fótum á herðum fyrirrennara sinna, einkum Bachs og Beethovens. Enda stundum talinn með þeim sem eitt stóru B-anna þriggja. Robert Schumann kynnti hann tvítugan fyrir tónlistarheiminum í 1853-hefti tímarits síns Neue Zeitschrift für Musik. Svo fullur aðdáunar var Schumann á hæfileikum Brahms að ýmsum þótti nóg um, og kannski ekki síst Brahms sjálfum, sem jafnan var harður gagnrýnandi eigin tónlistar. Þrátt fyrir miskunnarlausa grisjun og endurskoðun verka sinna liggur eftir hann ótrúlega mikið af tónlist af ýmsu tagi, þeirra á meðal 24 veigamikil kammerverk. Um píanótríóið op. 101 skrifaði Clara Schumann í dagbók sína í júní 1887: „Hvílíkt tónverk! Allgjör snilld, heillar mann upp úr skónum með hugmynda-auðgi, þokka og skáldlegum krafti! Ekkert sem Jóhannes hefur samið hefur hrifið mig svona!“ Clara var auðvitað ekki fullkomlega óhlutdræg því enn deila menn um það hvort vinátta hennar og Brahms hafi verið „platónsk“ eða ekki. Tríóið op. 101 hefur verið flutt tvisvar sinnum áður í Kammermúsíkklúbbnum, í nóvember 1982 og september 2010.

SSt