Um efnisskrána

Reynaldo Hahn, franskt tónskáld, hljómsveitarstjóri, tónlistargagnrýnandi, leikhússtjóri og söngvari, fæddur í Venesúela. Hahn var undrabarn, tekinn 10 ára gamall í Conservatoire Parísar þar sem Maurice Ravel var meðal skólabræðra hans. Sem tónskáld er hann þekktastur fyrir sönglög sín. Í ljóðinu Til Chlorisar tjáir ljóðmælandinn, með orðum skáldsins Théophile de Vieau (1590-1626), Chloris ást sína:

A Chloris – Til Klórisar

Sé það satt, Klóris, að þú elskir mig,

(og mér er sagt að sú sé raunin),

þá trúi ég því ekki að jafnvel kóngar

gætu verið jafn hamingjusamir og ég er.

Sjálfum dauðanum væri það um megn

að svipta mig þeirri hamingju

að eiga alsælu í vændum!

Allt sem sagt er um ambrósíu*)

lætur hug minn  ósnortinn

miðað við boð augna þinna!

*) ambrósía var matur og drykkur hinna forngrísku guða sem færði eilíft líf, líkt og epli Iðunnar í vorri goðafræði.

 

Jacques Ibert kom víða við sem tónskáld, samdi 7 óperur, 5 balletta, tónlist fyrir leikhús og kvikmyndir, píanóverk, kórverk og kammertónlist. Blásturshljóðfæri, ekki síst þverflauta, eru áberandi í kammerverkum hans.

Lili Boulanger var undrabarn sem spilaði á mörg hljóðfæri og sat í tímum í konservatoríinu með tíu árum eldri systur sinni, tónsmíðakennaranum fræga Nadiu. Fyrst kvenna hlaut Lili tónskáldaverðlaunin Prix de Rome (1913) sem veitt voru árlega einu tónskáldi frá 1803 til 1968 þegar André Malraux menningarráðherra lagði þau niður – Debussy hlaut þau 1884, Jacques Ibert 1919 en Ravel sótti um þau fimm sinnum án árangurs. Þrátt fyrir stutta ævi Boulanger, spannaði markverður tónskáldaferill hennar 10 ár. Einleiksverkin Nocturne og Cortése fyrir fiðlu/flautu og píanó eru oftast flutt saman eins og nú.

Maurice Ravel, franskt tónskáld, píanóleikari og hljómsveitarstjóri. Á námsárum sínum í Conservatoire Parísar lenti hann „upp á kant“ við íhaldsama kennarana og þróaði í framhaldinu eigin stíl með þáttum úr öllum áttum, frá barokki til jazz. Á millistríðsárunum var Ravel almennt álitinn fremsta þálifandi tónskáld Frakka.

     Sónata fyrir fiðlu og selló er eitt af sjö kammerverkum Ravels; um helmingur 85 skráðra verka hans er hljóðfæratónlist, hinn helmingurinn sunginn, þ.á.m. tvær óperur, mörg kórverk og þau sönglög sem flutt eru á þessum tónleikum.

     Deux Mélodies Hèbraïques (Tveir hebreskir söngvar, 1914) fyrir rödd og píanó: texti Kaddisch er á arameísku, L’enigme éternelle á jiddísku. Undirritaður leggur ekki í þessa texta.

     Chansons madécasses, Söngvar frá Madagaskar eru þrír ljóðasöngvar sem Maurice Ravel samdi 1925 og ’26 við framandleg prósaljóð eftir skáldið Évariste de Parny (1753-1814). De Parny fæddist á frönsku eynni Réunion í Indlandshafi, menntaðist í Frakklandi en var um tíma á Indlandi á vegum yfirstjórnar franskra nýlendna þar. Á Indlandi safnaði hann efni í Madagaskar-söngvana þrjá sem komu út í Frakklandi 1787, meðal fyrstu prósaljóða á franskri tungu. De Parny lét að því liggja að hann hefði þýtt þessi ljóð úr máli frumbyggja, en að flestra mati voru þau hans eigin hugverk:

 

Nahandove, ó fagra Nahandove! Næturfuglarnir eru byrjaðir að syngja, fullur máninn skín á himni, og fyrsta dögg næturinnar vætir hár mitt. Stundin er kominn: Hver skyldi vera að tefja þig? Ó fagra Nahandove!

 

Ég hef gert okkur beð úr laufi og dreift í hann blómum og ilmríkum jurtum; það sæmir yndisleik þínum, ó fagra Nahandove!

 

Hún er að koma. Ég þekki hraðan andardrátt þess sem flýtir göngu sinni; ég heyri skrjáfið í pilsi hennar. Það er hún, það er Nahandove hin fagra!

 

Kastaðu mæðinni, unga ástin mín; hvíldu í kjöltu minni. Hve töfrandi eru augu þín, hve lifandi og dásamlegt brjóst þitt sem bifast við snertingu mína! Þú brosir, ó fagra Nahandove!

 

Kossar þínir grípa sál mína; atlot þín kveikja í mér bál. Hættu, eða ég dey! Er hægt að deyja úr alsælu? Ó, fagra Nahandove!

 

 Nautn líður hjá eins og elding; yndislegur andardráttur þinn róast, rök augun lokast aftur, höfuð þitt hnígur, og sæluvíma þín breytist í þreytu. Aldrei varstu svona fögur, ó fagra Nahandove!

 

Nú ertu á förum og ég mun þreyja í sorg og þrá. Ég verð að þreyja til sólarlags. Þú kemur aftur í kvöld, ó fagra Nahandove!

 

Aoua! Aoua! Forðastu hvítu mennina sem setjast að á ströndinni. Á tíma föður þíns komu þeir, lofuðu öllu fögru, héldu að okkur guði sem við skildum ekki, en reistu svo virki og fylltu fallbyssukjafta af þrumum, gerðu okkur að þrælum. Við risum upp og þurrkuðum þá út í hræðilegu blóðbaði.

Aoua! Aoua! Forðastu hvítu mennina. Við höfum séð nýja harðstjóra, fleiri og öflugri, setja upp tjöld sín á ströndinni: himnarnir hafa slegist í lið með okkur, steypt yfir þá regni, stormum  og eitruðum vindum. Þeim var útrýmt en við lifum, lifum frjáls.

Aoua! Forðastu hvítu mennina sem setjast að á ströndinni.

 

Il est doux. Það er unaðslegt að liggja í skugga undir laufmiklu tré og bíða svala kvöldgolunnar. Komið, stúlkur! Fyllið eyru mín með söng ykkar meðan ég hvíli undir laufkrónu trésins. Syngið aftur sönginn um stúlkuna sem fléttaði hár sitt og um stúlkuna sem sat við hrísgrjónaakurinn og fældi burt gráðuga fuglana.

Söngur gleður sál mína; og dans er næstum eins unaðslegur og koss. Stigið hægt til jarðar svo fótatakið leiði hugann að unaði og ástar-algleymi.

Nú er farið að blása; máninn skín gegnum greinar trjánna. Farið að undirbúa kvöldmatinn. 

Claude Debussy, talinn meðal áhrifamestu tónskálda áratuganna kringum aldamótin 1900. Tíu ára gamall fékk hann inngöngu í Conservatoire Parísar til að læra á píanó en fann fljótlega köllun sína í nýstárlegri, skapandi tónsköpun, mjög gegn vilja íhaldssamra kennara sinna. Fullum þroska sem tónskáld náði hann þó ekki fyrr en áratugum síðar, og sló fyrst í gegn sem stjarna á tónskáldahimni tæplega fertugur, með óperunnu Pelléas et Mélisande, 1902. Syrinx (1913) var fyrsta verk samið fyrir einleiksflautu í 150 ár, eftir Sónötu í a-moll eftir C.P.E. Bach 1747. Sónatan fyrir selló og píanó (1915) er almennt talin meðal fremstu meistarastykkja „selló-bókmenntanna“, fastur liður á tónleikaskrám sellóleikara.   

Sig. St. tók saman og snaraði ljóðunum efnislega