Um efnisskrána:

 

Mieczysław Samuilovich Weinberg  (einnig Moisey Vainberg/Vaynberg)  fæddist  í Varsjá 1918 og lést í Moskvu 1996.  Hann var pólskur gyðingur sem flúði til Sovétríkjanna í upphafi seinni heimsstyrjaldar og settist fyrst að í Minsk. Hann var píanóleikari en hóf ekki tónsmíðanám fyrr en hann var sestur að í Sovétríkjunum. Weinberg var lengi framan af nánast óþekktur á Vesturlöndum. Í 1977 útgáfu hins virta uppflettirits, Grove’s Dictionary of Music and Musicians, er Weinbergs ekki getið en í 2001-útgáfuni fær hann ítarlega umfjöllun enda hefur hann notið sívaxandi virðingar og vinsælda á síðustu árum. Hann telst nú til mestu tónskálda Sovétríkjanna á 20. öld við hlið Prokofíeffs, Miaskovskys og Shostakovich og var reyndar einn fárra náinna vina hins síðastnefnda. Til eru hljóðritanir þar sem þeir tveir spila fjórhent á píanó, m.a. Tíundu sinfóníu Shostakovich. Tónmál þeirra tveggja þykir mörgum vera skylt og margt er til í því. Alltént má telja að tónlist annars hafi orðið að innblæstri hins og tengi þá svo sterkum böndum að tónlistin sem sprettur þaðan gæti virst ættuð úr sama ranni.

Weinberg var afkastamikið tónskáld. Eftir hann liggja m.a. 22 sinfóníur, 17 strengjakvartettar og tónlist við 40 kvikmyndir. Auk þess samdi hann 7 óperur og hefur ein þeirra, Die Passagierin, verið sviðsett víða um lönd á síðustu árum og hlotið mikið lof. Píanókvintettinn op. 18, sem hér er fluttur í dag,  var saminn 1944 og frumfluttur árið eftir af Bolshoï kvartettinum og Emil Gilels við píanóið. Kvintettinn er viðamikil tónsmíð, nærri þriggja stundarfjórðunga langur, og í fimm köflum. Hér er andrúmsloftið alvarlegt enda fátt til að gleðjast yfir í ógnum stríðsins í Sovétríkjunum. Og ekki síst fyrir tónskáld sem var af gyðinglegum uppruna. En verkið er svo áhrifamikið að fullyrða má, að það gleymist engum sem á hafa hlýtt. Í einni umsögn um verkið var því haldið fram að hér væri á ferðinni besta kammerverk 20. aldar. Sem kannski er nokkuð djúpt í árinni tekið. En samt ekki svo fráleitt. Að minnsta kosti á kvintett Weinbergs heima ofarlega á einhverjum viðeigandi lista yfir bestu verk aldarinnar. Á því er enginn vafi.

Ástæða er til að fagna því þegar tónskáld, sem áður voru lítt þekkt eða óþekkt tónverk skjóta upp kollinum og jafnvel skáka stóru strákunum í greininni. Þetta er sífellt að gerast, stöðugt finnast “ný” tónverk í rykugum kjöllurum og geymslum, áður óþekkkt tónskáld reynast vera viðkynningarinnar virði og stundum vel það, svo mjög að óhætt er að tala um snillinga. Þeir mega passa sig þeir Shostakovich, Brahms, Dvorák, Britten, Prokofieff og jafnvel afmælisbarn ársins, sjálfur Beethoven. Undirritaður vill a.m.k. leyfa sér að fullyrða að Weinberg hafi verið snillingur.

Í Píanókvintett Antoníns Dvořáks B 155 (op. 81) kveður við annan og bjartari tón en í verki Weinbergs. Þetta meistaraverk Dvořáks er eitt þekktasta kammerverk hans og nýtur vinsælda á við “Dumky”-tríóið B 166 (op. 90). Kvintettinn er saminn árið 1887, þegar rómantíkin stóð sem hæst. Rómantískar hugmyndir Dvořáks koma í verkinu skýrt fram í þjóðlegu ívafi, bæheimski dansinn furiant er uppistaða scherzókaflans og annar kaflinn byggir á dumka, sem er hægur þjóðlegur  dans frá heimaslóðum Dvořáks, á víxl hægur og angurvær og hraður og ákafur. Upphafskaflinn hefst á ljóðrænu sellóstefi en brátt taka við ástríðufyllri hugmyndir og færist tónlistin áreynslulaust milli þessara tveggja þátta kaflann á enda. Lokakaflinn einkennist af fölskvalausri gleði, sem hvorki fúgukaflinn í honum miðjum né kórallinn undir lokin megna að draga úr.

 

Valdemar Pálsson