Um efnisskrána:

 

Auk þess að stunda tónlistarnám lauk Zoltán Kodály háskólanámi í tungumálum og doktorsprófi í heimsspeki og málvísindum. Hann lagði stund á fiðlu-, víólu- og píanóleik og hafði auk þess gott vald á sellói, sem hann lærði á hjá sjálfum sér. Það átti þó ekki eftir að vera hljóðfæraleikur, heimsspeki eða málvísindin sem Kodály varð þekktur fyrir. Meginframlag hans til evrópskar menningar var þjóðlagasöfnunin sem hann stundaði um árabil af mikilli elju ásamt vininum og kolleganum Béla Bartók. Þeir félagarnir drösluðust um afskekktustu sveitir Ungverjalands og Balkanlanda með upptökubúnað sinn, sem bæði var mikill um sig, níðþungur og frumstæður. Klunnalegir vaxhólkar, upptökutæki og stór lúður til að syngja inn í voru meðal þess sem þeir félagar höfðu meðferðis. Og að sögn var farangurinn ekki mesta vandamálið. Það var hreint ekki heiglum hent að sannfæra bændur og búalið um að óhætt væri að góla gömlu lögin þeirra inn í lúðurinn. Og til hvers væri það svo sem? Þau væru nú ekki svo merkileg. En með dugnaði og ósérhlífni tókst þeim félögum að  safna þúsundum þjóðlaga frá austanverðri Evrópu. Hefði ekki verið fyrir framsýni Kodálys og Bartóks hefði þessi merkilega tónlist glatast. Flóknara er það ekki. Nú á dögum njótum við atorku þeirra félaga, því auk þess að skrá, rita niður og hljóðrita þessi lög birtast þau í fjölda tónverka þeirra. Meðal annars notaði Kodály ungversk þjóðlög í Dúóið op. 7 fyrir fiðlu og selló, sem hér er flutt. Verkið er gott dæmi um  hvernig nota má þjóðleg stef og ryþma í hefðbundinni vestrænni tónlist. Nýstárlegt er hér að heyra hvernig hljóðfærin eru látin „tala saman“ og eiga á víxl yfirhöndina og þá kemst hitt varla að, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Við gætum verið að hlusta á samræður þar sem sá sem orðið hefur gefur það ógjarnan frá sér, samræðurnar verða oft ákafar og jafnvel æstar en róast svo niður og verða innilegar og vinsamlegar. Birtist hér kannski áhugi Kodálys á  tungumálum og málvísindum?

 

Sergei Rakhmaninov samdi tvö píanótríó, sem bæði nefnast Trio élégiaque. Það fyrra, í g-moll, var samið á nokkrum dögum árið 1892 af  ungum manni í tónlistarháskóla, verðandi megintónskáldi og stórpíanista. Af öðrum æskuverkum Rakhmaninovs eru það helst  Píanókonsertinn nr. 1 og Píanótríóið nr. 2 í d-moll frá 1893, sem eiga það til að heyrast  nú á dögum. Er það nú flutt öðru sinni hjá Kammermúsíkklúbbnum, fyrra skiptið var 1988.  Líkt og í fyrra tríóinu er skuggi Tchaikovskys hér alls staðar og allt um kring, enda er það samið í minningu hins síðarnefnda, er eins konar sorgaróður um hið látna þjóðartónskáld Rússa, sem Rakhmaninov dáði svo mjög. Og ekki er ólíklegt að hann hafi haft tríó Tchaikovskys að einhverju leyti að fyrirmynd. Bæði eru verkin mikil að vöxtum, reyndar með lengstu píanótríóum sögunnar, og fylgja svipuðu mynstri í uppbyggingu. Bæði hefjast á tilfinningahlöðnum og  harmþrungnum upphafskafla (Tchaikovsky samdi tríóið sitt til minningar um góðan vin, tónskáldið Nikolai Rubinstein), í báðum verkum er annar kafli langur tilbrigðakafli sem Tchaikovsky lætur renna saman við lokakaflann en Rakhmaninov vinnur í sínum tilbrigðakafla úr aðalstefi hljómsveitarfantasíunnar „Kletturinn“, sem hann lauk við fyrr sama ár og hafði vakið hrifningu Tchaikovskys.  Bæði tónskáldin enda verk sín svo á sorgarmarsi sem byggir á efni úr upphafsköflum þeirra.

Valdemar Pálsson