Um efnisskrána:

Wolfgang Amadeus Mozart ferðaðist víða með föður sínum sem barn og fram á unglingsár. Þrjár ferðir til Ítalíu á árunum 1771 og 1772 voru sérstaklega velheppnaðar, hann lærði mikið, kynntist nýrri tónlist og stefnum og var bókstaflega að springa af sköpunarþörf á leiðinni og í kjölfari þessara ferða. Að lokinni annarri heimsókninni til Milano samdi Mozart þrjú divertimenti fyrir strengi K 136, 137 og 138. Handritin að þessum verkum hafa titilinn „Divertimento“, en rithöndin er ekki Mozarts. Hugsanlegt er að Mozart hafi aðeins hugsað sér einn hljóðfæraleikara á rödd, sem þá benti til þess að hann væri að „æfa sig“ fyrir strengjakvartettasmíð. En það áttu aðeins eftir að líða nokkrir mánuðir áður en fyrstu kvartettarnir litu dagsins ljós. Þá hafði hann samið sex stykki! Dívertímentóið í F-dúr er uppfullt af snjöllum hugmyndum, lífsgleði og æskufjöri. Lítil perla í festi þessa snjalla fimmtán ára unglings sem átti eftir að vinna svo ótalmörg afrek á tónlistarsviðinu.

„Síðrómantíkerinn Anton Webern“, hljómar óneitanlega þversagnakennt. Það sem Webern er síst þekktur fyrir er víst rómantísk hugsun. Þetta eitt megintónskálda tólftónatónlistarinnar var lengst af í algerri uppreisn gegn straumum tímans á ferli sínum. En allir eru einhvern tímann ungir og leitandi. Árið 1905 samdi Webern „Langsamer Satz“ (hægan kafla) fyrir strengjakvartett. Verk sem gæti hæglega hafa verið samið af Brahms eða Richard Strauss. Í dagbókarfærslu Weberns má lesa að verkið sé lýsing á skógargöngu með unnustu hans, „tvær ölvaðar sálir“ í alsælu ástarinnar. Tónverk Weberns eru öll afar stutt. Langsamer Satz er eitt af lengri verkum tónskáldsins, tekur um 9 mínútur í flutningi!

Varla var hægt að ímynda sér dramatískari aðkomu að tónlistarsenunni á öðrum áratug 20. aldar en Igor Stravinsky gerði. Ballettarnir þrír, Eldfuglinn, Petrouskha og einkum Vorblótið árið 1913 ollu straumhvörfum í vestrænni tónlist. Aðeins ári seinna snaraði Stravinsky Trois pièces pour quatuor de cordes (Þremur stykkjum fyrir strengjakvartett) á blað á aðeins fjórum dögum. Hér hafði Stravinsky gersamlega snúið við blaðinu, einfaldað og smækkað form og þrengt litróf tónlistarinnar. Samt fer ekki á milli mála að hér skal ögrað, andi Vorblótsins svífur yfir vötnum og allt er leyfilegt. Upprunalega höfðu kaflarnir þrír ekki titla en seinna, þegar Stravinsky útsetti verkið fyrir hljómsveit, gaf hann þeim heitin I. Danse, II. Excentrique og III. Cantique.

Ludwig van Beethoven helgaði síðustu ár sín samningu fimm strengjakvartetta, sem að flestra áliti marka hápunkt þess sem hann samdi á sviði kammertónlistar. Og sumir myndu staðhæfa að lengra og hærra yrði ekki komist. Yfirleitt. Þrír þessara kvartetta voru samdir að beiðni Nikolaj Galizins fursta. Sá þriðji í röðinni er Strengjakvartettinn op. 130. Eftir frumflutning verksins 1826 þótti ýmsum áheyrendum lokakaflinn helst til mikill að vöxtum og tyrfinn fyrir verk sem að meginhluta hefur yfir sér bjart yfirbragð svítu eða divertimentós. Í auðmýkt, sem gerði víst ekki oft vart við sig hjá Beethoven, lét hann sannfærast og að tilmælum útgefandans samdi hann nýjan lokakafla, sem myndi hæfa verkinu betur, bæði hvað varðar lengd og innihald. Þetta sérkennilega verk er í sex köflum og er hér flutt í sinni endurskoðuðu mynd án lokakaflans tröllaukna, „Grosse Fuge“. Endurgerðin var fyrst flutt að tónskáldinu látnu.

Valdemar Pálsson