Um efnisskrána:
Þegar rómantíkina, tónlist 19. aldar, ber á góma verður ekki litið framhjá erkirómantíkernum Felix Mendelssohn. Tónlist Mendelssohns hafði allt til að bera sem einkenndi þessa stíltegund. Honum var einkar lagið að tjá stemningu augnabliksins, hugarástand, náttúrumyndir, staðhætti og andrúmsloft og einnig sótti hann innblástur í aðrar listgreinar, svo sem ljóðlist og málaralist. Hin síðastnefnda var reyndar hans önnur listgrein, hann var geysiflinkur landslagsmálari og málaði með vatnslitum. Mendelssohn kom úr auðmannastétt og var af Gyðingaættum. Lífið lék við undrabarnið, sem hann sannarlega var, og það má gjarnan heyra í verkum hans. Þau einkennast oftar en ekki af lífsgleði og æskufjöri (hann varð aðeins 38 ára), sem kemur m.a. fram í leiftrandi scherzó-köflum sinfóníanna, Jónsmessunæturdraums og Oktettsins og í glæsilegum virtúósakonsertum. En engin er regla án undantekninga. Kvartettinn op. 44 nr. 3 (1838), sem er sá fimmti af sex kvartettum Mendelssohns, hefur nokkuð alvarlegan undirtón, sem glöggt má skynja í miðköflunum tveimur. Í leiftrandi lokakaflanum birtir til þótt á stundum bregði fyrir skugga, en verkinu lýkur þó á nótum bjartsýni.
Í byrjun 19. aldar höfðu orðið miklar framfarir í smíði klarínettunnar sem gerðu hljóm hennar miklu mýkri og fallegri og vinsældir hljóðfærisins fóru jafnvel að skáka fiðlunni og píanóinu. Hinn illskeytti gagnrýnandi, Eduard Hanslick, tók meira að segja hljóðfærið í sátt. Vinur Carls Maria von Weber, klarínettusnillingurinn Heinrich Baermann (1784-1847), hafði mikil áhrif í þá átt að hefja klarínettuna til virðingar, bæði í hljómsveitum og sem einleikshljóðfæri. Hann þótti einstakur tónlistarmaður, litríkur í meira lagi og vinsæll, eins konar „Paganini“ klarínettunnar. Tónn hans þótti silkimjúkur og tjáningarríkur og ólíkur öllu öðru sem áður hafði heyrst á klarínettu. Weber tileinkaði þessum vini sínum langflest klarínettuverk sín og var seinþreyttur á að þakka honum vaxandi velgengni sína. Flutningur Baermanns á klarínettuverkum Webers ruddu sem sé brautina fyrir hið unga tónskáld. Fram að þessu hafði gagnrýni á Weber verið óvægin (orð eins og „fábjáni“ og „tónlistarskrímsli“ mátti lesa í umfjöllunum um Weber). Klarínettukvintettinn J 182 var saminn á árunum 1811-1815 og frumfluttur af Baermann. Verkið snýst nánast eingöngu um klarínettuna, sem fær hér að sýna á sér allar hliðar í hugmyndaríku flúri og heillandi lagferli.
Valdemar Pálsson