Um efnisskrána:

 

Sergei Prokofieff samdi Sónötuna í C-dúr fyrir tvær fiðlur op. 56 í París árið 1932. Hann hafði þá gert upp hug sinn um að snúa til baka til Sovétríkjanna eftir áralanga dvöl í Frakklandi en þar hafði hann búið frá árinu 1922. Sónatan var frumflutt 16. desember 1932 á stofntónleikum tónlistarfélagsins „Triton“, sem hafði það að markmiði að kynna og veita framgöngu nýrri tónlist. „Triton“ var sannarlega félagsskapur þungaviktarmanna tónlistarinnar í París. Stofnandi var Pierre-Octave Ferroud og í  framkvæmdanefnd voru meðal annarra tónskáldin Poulenc, Milhaud, Honegger, Prokofieff og Martinů og ekki minni menn en Ravel, Stravinsky, Richard Strauss, Schönberg, Bartók, Roussel og Szymanowski voru heiðursfélagar. Félagið starfaði til 1939. Tónmálið í Sónötu Prokofieffs er nokkuð langt frá þeim hvassa stíl sem einkenndi mörg verka hans á þriðja áratugnum og jafnvel má fá örlítinn forsmekk af balletttónlistinni við Rómeó og Júlíu sem leit dagsins ljós sex árum seinna.

 

Píanókvartett nr. 1 eftir Alfred Schnittke er saminn árið 1988. Verkið er byggt á  24 takta drögum að scherzókafla í g-moll eftir Gustav Mahler (1860-1911), sem hann ætlaði fyrir Kvartett fyrir píanó og strengi í a-moll frá 1876. Ekkert varð úr að Mahler  fullgerði scherzókaflann, en staki kvartettþátturinn stendur vel fyrir sínu sem sjálfstætt tónverk og átti eftir að verða eina útgefna kammerverk Mahlers. Í kvartettverki Schnittkes má segja að þar takist á tvö tónskáld, þar sem annað beiti öllum brögðum til að ná yfirhöndinni. Og leikurinn er ójafn. Schnittke neitar sér ekki um neitt en Mahler gægist fram af veikum mætti. Að sögn má greina stef Mahlers sextán sinnum og undir lokin heyrist uppkast Mahlers í heild sinni. Ekki fer á milli mála að Schnittke á lokaorðið.

 

Belgíska tónskáldið Adrien-François Servais var talinn einn mesti sellóleikari 19. aldar. „Niccolò Paganini sellósins“ staðhæfði Hector Berlioz, enda vanur að taka stórt upp í sig. Servais var lærimeistari margra þekktra sellóleikara samtíma síns og var fyrsti sellóleikarinn, sem notaði pinna sem hljóðfærið hvíldi á líkt og bassaleikarar, enda lék hann á selló sem var svo stórt og þungt að slíkt reyndist nauðsynlegt (Stradivarius „Servais“, 1701). Þessi útbúnaður varð reyndar ekki algengur fyrr en á fyrstu áratugum 20. aldar. Hljóðfærið er nú í eigu Smithsonian-stofnunarinnar. Tilbrigðin um breska þjóðsönginn, Variations brillantes et concertantes sur l’air „God Save the King“, sem við í lítillæti okkar köllum Tilbrigðin við „Eldgamla Ísafold“, samdi Servais ásamt belgíska fiðluleikaranum Joseph Ghys. Verkið er glæsilegt í alla staði og gerir miklar kröfur til flytjenda, enda samið af tveimur hljóðfæravirtúósum sem gjarnan vildu sýna hvað í þeim bjó.

 

Béla Bartók þurfti,  líkt og flest önnur tónskáld, að hefja tónskáldaferil sinn með því að stíga létt og varfærnislega til jarðar. Það gerði hann með tónaljóðinu „Kossuth“ (1903) sem á Franz Liszt margt að þakka og Píanókvintettinum (1903-04) sem er saminn undir sterkum áhrifum frá Richard Strauss. Tónskáldið fetar því í fótspor síðrómantísku tónskáldanna í fyrsta og líkast til síðasta sinn. Tónmál Bartóks er hér sannarlega ljósár frá því sem t.d. má heyra í strengja-kvartettunum. En samt má á köflum vel heyra  hluti sem minna sterklega á það sem koma skyldi (t.d. upphaf og niðurlag hæga kaflans). Þótt Bartók hafi ekki verið byrjaður söfnun á ungverskum þjóðlögum þegar kvintettinn var saminn má vel heyra þau áhrif þjóðlegrar tónlistar sem áttu eftir að fylgja mörgum tónsmíðum Bartóks það sem eftir var. Í lokakaflanum, sem rennur saman við hæga kaflann, heilsar Bartók upp á Liszt og fær sér snúning með honum í bráðfjörugri ungverskri rapsódíu sem gæti hæglega verið eftir þann síðarnefnda.

 

Valdemar Pálsson