Um tónskáldin

Joseph Haydn hefur verið nefndur „faðir strengjakvartettsins“ og „faðir sinfóníunnar“ en einnig átti hann mikinn þátt í þróun píanótríósins, samdi ein 45 slík. Jafnframt var hann kennari Beethovens og fyrirmynd Mozarts. D-dúr tríóið Hob.XV:16 er eitt þriggja (XV:15,16,17 í G-, D- og F-dúr) sem skrifuð voru fyrir flautu í stað fiðlu.

Jórunn Viðar hefði orðið 100 ára á þessu ári. Hún lærði píanóleik á Íslandi og í Þýskalandi, og tónsmíðar við Juilliard í New York. Heimkomin samdi hún tónlist við barnaleikrit Drífu Viðar, Grámann í Garðshorni (1948), við  kvikmyndina Síðasti bærinn í dalnum (1950) og ballettinn Eldur, en auk þess liggur eftir hana ógrynni af píanóverkum, sönglögum, kórverkum og kammertónlist. Hún var fyrsta og lengi vel eina konan í Tónskáldafélagi Íslands.

Atli Heimir Sveinsson, sem varð áttræður um daginn, er í hópi kunnustu og fjölhæfustu tónskálda Íslands, hefur samið óperur, sönglög og margvísleg verk fyrir einleikshljóðfæri og hópa. Atli Heimir hlaut Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs árið 1976 fyrir „Konsert fyrir flautu og hljómsveit" sem hann samdi fyrir kanadiska flautuleikarann Robert Aitken.

Þorkell Sigurbjörnsson hefði orðið áttræður á þessu ári. Hann var í hópi virtustu og afkastamestu tónskálda þjóðarinnar, samdi u.þ.b. þrjú hundruð tónverk, og af þeim eru Skiptar skoðanir hið tíunda sem flutt er í Kammermúsíkklúbbnum síðan 1970.

Johann Nepomuk Hummel var undrabarn í tónlist og einn fremsti píanóleikari síns tíma. Sem tónskáld var hann svo mikils metinn að Chopin er sagður hafa talið hann fremri en Mozart. En sagan varð honum ekki hagstæð og hann hvarf  að nokkru í skugga Mozarts og Beethovens.

Philippe Gaubert var virtur franskur flautuleikari og hljómsveitarstjóri. Sem tónskáld samdi hann einkum kammerverk fyrir flautu þar sem fræðimenn greina áhrif frá Franck, Ravel og Debussy. Eftir frægðarferil sem fyrsta flauta Parísaróperunnar varð hann 1919 aðalhljómsveitastjóri óperunnar sem og prófessor í flautuleik og stjórnandi hljómsveitar Tónlistarháskólans. Auk kammerverka samdi Gaubert eina óperu, Naila (1927).

Sig. St.