FLYTJENDUR 

Anton Miller og Rita Porfiris eru hvort um sig þekktir einleikarar en frá 2005 hafa þau leikið saman víða um heim undir merkinu Miller-Porfiris Duo og gefið út þrjá geisladiska með tónlist fyrir fiðlu og víólu sem hlotið hafa frábæra dóma. Rita Porfiris og Guðný Guðmundsdóttir léku fyrst saman á tónleikum á tónlistarhátíð í Houston í Texas fyrir rúmum áratug og síðustu ár hefur Guðný spilað með þeim Miller og Porfiris bæði á Íslandi og í Bandaríkjunum.

 

Guðný Guðmundsdóttir hefur verið meðal fremstu hljóðfæraleikara Íslands um áratugaskeið. Hún gegndi starfi 1. konsertmeistara Sinfóníuhljómsveitar Íslands frá 1974-2010 og hefur komið fram sem einleikari, í kammertónlist og sem gestakennari víða í Bandaríkjunum, Evrópu og Asíu. Hún hefur kennt við Tónlistarskólann í Reykjavík í yfir fjóra áratugi og einnig hin síðari ár við Listaháskóla Íslands, þar sem hún hlaut titilinn heiðursprófessor sl. vor. Guðný hefur leikið á hátt í fjörutíu tónleikum á vegum Kammermúsíkklúbbsins frá árinu 1966.

 

Bryndís Halla Gylfadóttir kemur nú fram í 38. sinn síðan 1983 hjá Kammermúsíkklúbbnum. Frá námslokum í Boston 1989 var hún leiðandi sellóleikari Sinfóníuhljómsveitar Íslands, hefur verið einleiks-, hljómsveitar- og kammerleikari víða um lönd, hlotið margvísleg verðlaun og gefið út geisladiska.

 

Bjarni Frímann Bjarnason (f. 1989) stundaði fiðlunám frá 4ra ára aldri hjá Lilju Hjaltadóttur og Guðnýju Guðmundsdóttur. Árið 2009 lauk hann prófi í víóluleik frá Listaháskóla Íslands og sótti síðan nám í hljómsveitarstjórn í Berlín. Auk þess hefur hann hlotið verðlaun sem einleikari og undirleikari á píanó. Bjarni hefur verið mjög virkur í tónlistarlífinu síðustu árin og gegnir nú stöðu aðstoðarhljómsveitarstjóra Sinfóníuhljómsveitar Íslands.