Um efnisskrána

 László Weiner (1916-44) var ungverkt tónskáld, píanóleikari og hljómsveitarstjóri. Tónsmíðar nam hann hjá Zoltán Kodály 1934-1940; í febrúar 1943 var hann handtekinn af nazistum og fluttur í þrælakistuna Lukov í Slóveníu þar sem hann var myrtur ári síðar, 28 ára að aldri. Eftir hann liggja m.a. fjögur kammerverk: Strengjatríó (1938), Dúó fyrir fiðlu og víólu (1939), Sónata fyrir víólu og píanó og Tveir þættir fyrtr klarinettu og píanó. Fyrir tilstilli fiðlarans Pál Lukács var lunginn af verkum Weiners gefinn út af „Editio Musica Budapest“ á 6. og 7. áratug síðustu aldar.

 

Zoltán Kodály (1882-1967) var ungverskt tónskáld, þjóðlagasafnari og -fræðingur, kennslufræðingur, málfræðingur og heimspekingur, kennari við Franz Liszt tónlistarakademíuna í Búdapest. Hann lærði á fiðlu í æsku og varð síðar áhrifamikill höfundur svonefndrar Kodály-aðferðar við tónlistarkennslu barna og unglinga – aðferð þessi líkist nokkuð hinni vinsælu Suzuki-aðferð. Árið 1905 hóf Kodály að hljóðrita þjóðlög alþýðu í fjallaþorpum Ungverjalands. Skömmu síðar hitti hann Béla Bartók, kynnti honum aðferðir og töfra þjóðlagasöfnunar og tók hann undir sinn verndarvæng. Þaðan í frá voru þeir vinir og kynntu tónlist hvor annars. Af ýmsum ástæðum vakti tónlist Kodálys litla athygli fyrr en 1923 þegar hann „sló í gegn“ með verki sínu Psalmus Hungaricus sem samið var í tilefni þess að 50 ár voru liðin frá sameiningu borganna Buda og Pest. Tónlist Kodálys þykir mjög frumleg að formi og innihaldi, athyglisverð blanda af þjóðlögum og vestrænni „æðri tónlist“ mismunandi tímaskeiða.

 

Edward Elgar (1857-1934) var sjálfmenntað enskt tónskáld. Hann var af alþýðufólki kominn og átti því framan af fremur erfitt uppdráttar meðal tónlistar-„elítu“  hins stéttskipta Bretlands Viktoríutímans. En 1899 komu Enigma-tilbrigðin honum rækilega í kastljósið og þegar Sir Arthurs Sullivan dó ári síðar tók Elgar sæti hans efst á vinsældalista enskra tónskálda. Árið 1904 var hann svo sleginn til riddara í Buckingham Palace af Játvarði kóngi VII – hét síðan Sir Edward. Frægðarsól Elgars skein bjartast á árunum 1902–14 þegar mörg sívinsæl verk komu frá hans hendi en eftir heimsstyrjöldina fyrri féll tónlist hans nokkuð úr móð. Þrjú helstu kammerverk hans, og meðal hans síðustu, eru frá árunum 1918 og ’19: Fiðlusónata í e-moll op. 82, Strengjakvartett í e-moll op. 83 og píanókvintettinn í a-moll op. 84. Píanókvintettinn var frumfluttur í maí 1919 og tileinkaður Ernest Newman, tónlistargagnrýnanda The Manchester Gardian.

 

Ekkert verka þessara tónleika hefur hljómað hjá Kammermúsíkklúbbnum áður, og þetta mun vera frumflutningur píanókvintetts Elgars á Íslandi.  

                                                                               S.St.