Um efnisskrána:

 

Felix Mendelssohn-Bartholdy var sannanlega eitt af megintónskáldum rómantíkurinnar. En því verður ekki á móti mælt að hann átti víðar heima. Þegar hlustað er á tónlist Mendelssohns flæða yfir mann fágaðar og glæsilegar laglínur sem oftar en ekki bera keim af stíleinkennum klassíkurinnar og þá ekki síst þeim Haydn og Mozart. Ef segja má að Mendelssohn standi traustum fótum í þessum tveimur tímabilum tónlistarsögunnar þá má með nokkrum rökum segja að hann hafi a.m.k. teygt stórutána í áttina til barokksins. Meðan jafnaldrar hans í götunni voru að skoppa gjörðum og toga í flétturnar á stelpunum, var hann, 11 ára gamall, byrjaður að semja fúgur í anda J.S. Bachs og ævilangur áhugi hans á tónlist Bachs og tímamótaflutningur hans á Matteusarpassíunni í Leipzig 1829 er alþekktur.

Capriccio í e-moll op. 81 nr. 3 (1843) er þriðji kaflinn í Vier Stücke für Streichquartett Op. 81. Stykkin fjögur eru samin á ýmsum tímum og voru gefin út að honum látnum. Kaflinn inniheldur tvö andstæð mótíf. Hann hefst á ljóðrænni og angurværri laglínu með vaggandi  bátsöngs-undirspili. Síðan tekur við æsileg fúga, þar sem Mendelssohn neitar sér ekki um neitt þegar kemur að kröfum til tónlistarmannanna. Og kaflinn endar að sjálfsögðu í sannkallaðri flugeldasýningu í anda tónskáldsins.

Til gamans má geta þess, að lokakaflinn í Vier Stücke op. 81, er fúga. Hvað annars? Hún verður að bíða betri tíma.

Krzysztof Penderecki hefur verið kallaður uppáhaldstónskáld leikstjóra hryllingsmyndanna og kemur tónlist hans við sögu í þekktum myndum leikstjóra á borð við Stanley Kubrick, William Friedkin, Martin Scorsese og David Lynch. Þeir tónleikagestir sem minnast kvikmynda þessara leikstjóra og þeirra verka annarra, sem  Penderecki samdi á sjöunda og áttunda áratug 20. aldar, svo sem Anaklasis, Emanationen  og Harmljóð um fórnarlömb Híróshíma (1960), Lúkasarpassíu (1963-66) og Dies irae (1967), þurfa ekkert að óttast. Upp úr 1980 tók tónsmíðatækni Pendereckis talsverðum breytingum, hann hafnaði framúrstefnunni sem hann aðhylltist á sínum yngri árum og kom honum á kortið í tónlistarheimum. Sögur herma að fólk hafi flúið öskrandi út úr tónleikasölum við frumflutning á Anaklasis og Emanationen Þessi umbreyting frá tilraunamennsku til hefðbundnari tónsmíðatækni, á stundum í anda nýklassíkur eða nýrómantíkur, olli lítilli hrifningu hjá róttækustu kollegunum meðal tónskálda. Nefna má þá Karlheinz Stockhausen og Pierre Boulez í þessu sambandi. Hrifningarskorturinn er gagnkvæmur hjá Penderecki.

Kvartettinn fyrir klarínettu og strengjatríó (1993) er eitt fárra kammerverka þessa afkastamikla tónskálds. Klarínettan er ekki beinlínis einleikshljóðfæri í verkinu en hefur fremur leiðandi hlutverk. Kvartettinn er í fjórum stuttum köflum sem hver um sig hefur lýsandi auðkenni og tónmálið er afar gegnsætt og á köflum nánast brothætt.

Penderecki er enn að og milli þess að semja tónlist hugsar hann um u.þ.b. 1500 trjátegundir á búgarðinum sínum í Lusławice í nágrenni Katowice, þar sem hann kom líka á fót  „Evrópsku tónlistarakademíunni í Lusławice” árið 2013.


Arnold Schönberg
, forvígismaður „Nýja Vínarskólans”, samdi allmörg verk fyrir strengjakvartett en aðeins fjórir strengjakvartettar voru gefnir út meðan hann lifði, sá fyrsti 1905 og sá síðasti 1936. Kvartettinn nr. 2 var saminn 1908, á erfiðum tíma í lífi Schönbergs. Hann hafði þá komist að því að eiginkonan, Mathilde, átti í ástarsambandi við vin þeirra hjóna og nágranna, listmálarann Richard Gerstl. Gerstl þessi umgekkst marga tónlistarmenn á sinni stuttu ævi og málaði m.a. myndir af Schönberg, Alban Berg og Alexander von Zemlinsky, bróður Mathilde. Sumarið 1908 yfirgaf Mathilde mann sinn og flutti, ásamt börnum þeirra, með Gerstl til Vínarborgar. Um haustið sleit hún sambandinu og flutti aftur heim til eiginmannsins. Eftir þetta áfall stytti Richard Gerstl sér aldur í nóvember sama ár, þá 25 ára.

Strengjakvartettinn nr. 2, sem er tileinkaður „Meiner Frau”, er óvenjulegur að því leyti að sópranrödd tekur þátt í flutningnum í 2 síðustu köflunum. Sungin eru ljóðin „Litanei” og „Entrückung” eftir Stefan George (1868-1933). Kvartettinn er talinn tímamótaverk í tónlistarsögunni, þar sem í fjórða kaflanum er stigið eitt fyrsta skrefið að því tóntegundaleysi, sem átti eftir að einkenna mikið af tónlist 20. aldar.

Ástæða er til þess að benda tónleikagestum á að hlusta vel á 2. fiðlu í öðrum kafla, þegar u.þ.b. 4-5 mínútur eru liðnar af kaflanum. Hvað gekk tónskáldinu eiginlega til með þessu innskoti?

Valdemar Pálsson