Um flytjendur

Auryn-kvartettinn stofnuðu fjórir þýskir tónlistarmenn, þá kringum tvítugt, árið 1981. Þeir hafa haldið hópinn síðan sem strengjakvartett og unnið fræga listræna sigra á þeim vettvangi, verðlaun í tónlistarkeppnum og lof gagnrýnenda. Meðal útgefinna hljómdiska þeirra eru allir kvartettar Haydns og Beethovens. 

     Nafnið Auryn vísar til verndargrips nokkurs í „Sögunni endalausu“ (ísl. þýð. 1984) eftir barnabóka- og ævintýraskádið Michael Ende (d. 1995). Gripurinn ber áritunina „Tu was du willst!“ – farðu eigin leiðir -- og innblæs eiganda sinn og hjálpar honum að fylgja sinni vonarstjörnu.

 

Ásdís Valdimarsdóttir (f. 1962) lauk meistaragráðu frá Juilliard skólanum í New York og síðar einleikaraprófi í Þýskalandi árið 1987. Ásdís hefur ferðast mikið um heiminn og komið fram í 6 heimsálfum. Hér á landi er Ásdís sennilega þekktust fyrir að hafa verið meðlimur hins heimsfræga Chilingirian strengjakvartetts í tæp 8 ár; hún lék hér heima ásamt kvartettinum á Listahátíð 1998. Hún hefur komið fram í ýmsum frægum tónlistarsölum heims: Carnegie Hall í New York, Concertgebouw í Amsterdam og Wigmore Hall í London. Hún hefur verið leiðari víóluhópsins í Deutsche Kammerphilharmonie og unnið þar með ýmsum vel þekktum tónlistarmönnum, m.a. Claudio Abbado, Gidon Kremer, Andras Schiff og Isabellu Van Keulen. Ásdís hefur komið fram á fjölmörgum alþjóðlegum tónlistarhátíðum, m.a. á Berliner Festspiele, Marlboro Music Festival í Bandaríkjunum og Kuhmo hátíðinni í Finnlandi.
     Ásdís er nú búsett í Amsterdam ásamt manni sínum og tveimur börnum. Auk þess að leika kammertónlist, kennir hún í Royal Northern College of Music í Manchester og á ‘International Masterclasses’ í Apeldoorn, Hollandi.

(Vefur Reykholtshátíðar 2013)

 Ásdís kemur nú fram hjá Kammermúsíkklúbbnum í 8. og 9. sinn síðan 1993.