Strengjakvintettar Mozarts

Fyrir daga glymskrattanns var tónlist aðeins til sem „lifandi tónlist“ eða sem nótur á blaði. Og þá, eins og nú, voru þeir margir sem ekki þótti síður gaman að spila sjálfir en að hlusta á aðra. Stofutónlist – „músík handa vinum að spila saman“ – var sjáfsagt samin ekki síst fyrir þennan markað en þar fyrir utan virðist svo sem mörg þeirra u.þ.b. sextíu kammerverka sem eftir Mozart liggja hafi verið samin fyrir hann sjálfan (oftast á víólu) og vini hans til að spila. Þannig á heimurinn Es-dúr tríóið K.498 og A-dúr kvintettinn K.581 vináttu Mozarts og klarinettistans Antons Stadler að þakka, vináttu hans og Josephs Leutgeb hornkvintettinn í Es-dúr K.407, vináttu hans við fiðluspilandi ostakaupmanninn Johann Tost síðustu víólukvintettana tvo, K.593 og K.614. Vináttu Mozarts og bræðranna Josephs og Michaels Haydn má þakka ýmsa strengjakvartetta sem þeir spiluðu saman – svo fáein dæmi séu nefnd. Staðreyndin er sú að lítið er vitað um tilurð flestra þessara verka, því enda þótt Mozart væri afkastamikill og opinskár bréfritari víkur hann sjaldan að kammerverkum sínum. Hins vegar er það bersýnilegt að hann lagði í þau sál sína og hjarta, því mörg þeirra eru meðal hans bestu verka.

Mozart samdi sex strengjakvintetta um dagana, hinn fyrsta (K.174) þegar hann var 17 ára. Fjórtán árum síðar komu næstu tveir með 4ra vikna millibili, K. 515 í C-dúr og K. 516 í g-moll. Þeir voru samdir undir sterkum áhrifum frá Michael Haydn sem Mozart mat mikils og hafði sjálfur samið verk fyrir strengjakvintett. Með kvintettum sínum, einkum ofangreindum tveimur og K.593 í D-dúr, lagði Mozart grundvöll að þessu tónlistarfomi – og fullkomnaði það jafnframt: víólukvintett, strengjakvintett með tveimur lágfiðlum. Mendelssohn, Brahms, Dvorák, Bruch og Bruckner áttu allir eftir að feta í þau fótspor og semja fyrir þessa hljóðfæraskipan sum sinna bestu kammerverka (og í tilviki Bruckners hans eina). Sellókvintettinn í stíl Boccherinis, með tveimur knéfiðlum, átti að vísu eftir að blómstra í hinum mikla D-dúr kvintett Schuberts, en Mozart kaus semsagt tvær lágfiðlur, hans uppáhaldshljóðfæri í kammertónlist.

Fjórða strengjakvintett sinn, í c-moll K.406/516b, skrifaði Mozart árið 1788, reyndar sem umritun á Serenöðu fyrir átta blásara K.388 frá 1782 eða 1783. Kvintettinum K.406 var mun verr tekið en frumgerðinni fyrir blásaraoktett og var hann ekki gefinn út fyrr en að Mozart látnum, árið 1792.

Siðustu kvintettana, í D-dúr K. 593 og í Es-dúr K. 614 samdi Mozart í desember 1790 og apríl 1791, sem fyrr sagði handa ostakaupmanni að nafni Johann Tost sem fyrrum var fiðlari í hljómsveit Haydns, og sem Haydn tileinkaði kvartetta sína op. 54, 55 og 64. Mozart og Haydn spiluðu þessa kvintetta sér til skemmtunar, vafalítið með Tost sem 1. fiðlu, áður en Haydn lagði upp í fyrri Lundúnareisu sína 1791; Mozart kvaddi hann með þeim orðum að sennilega mundu þeir ekki sjást framar, sem Haydn túlkaði sem svo að hinn ungi vinur hans teldi hann vera kominn á grafarbakkann fyrir elli sakir. En það fór á annan veg. Haydn átti eftir ólifuð 19 ár og sitt frjósamasta tímabil, en Mozart var allur áður en árið var á enda.

Allir víólukvintettar Mozarts utan hinn fyrsti hafa verið fluttir áður í Kammermúsíkklúbbnum, þar af g-moll kvintettinn K.516 fjórum sinnum.

Sig. St.