Um efnisskrána


Robert Schumann
var músíkalskur „eilífðarstúdent“ og rannsakandi tónlistar, sökkti sér niður í verk sinna miklu fyrirrennara auk þess að rýna nýjustu tónverk samtímans í tímariti sínu Neue Zeitschrift für Musik. Á árinu 1840 færðist fítonskraftur í sköpunargáfu tónskáldsins þar sem hann einbeitti sér um skeið að tiltekinni gerð tónlistar, samdi árið 1840 meira en 100 sönglög, árið 1841 þrjár sinfóníur og 1842 fimm kammerverk, þ.m.t. strengjakvartettana þrjá op. 41. Þetta svonefnda „kammermúsík ár“ hans byrjaði illa, hann hafði gerst lítilsmetinn (að honum þótti) fylgdarsveinn konu sinnar, píanósnillingsins Clöru á tónleikaferð hennar um Norður-Þýskaland og Danmörku, en gafst upp í miðjum klíðum og sneri einn heim til Leipzig. Þar drap hann tímann með þvi að æfa sig í kontrapunkti og kanna í þaula strengjakvartetta Mozarts, Beethovens og Haydns. Og fljótlega eftir að Clara kom heim í lok apríl tók hann til við að semja eigin strengjakvartetta – sína fyrstu og einu – og hafði lokið öllum þremur op. 41 í byrjun júlí. Kvartettarnir voru tileinkaðir vini hans Felixi Mendelssohn en frumfluttir sem gjöf til Clöru á 23ja afmælisdegi hennar 13. september 1842. Þessir kvartettar Schumanns hafa, ómaklega að sumra mati, staðið í vinsældum að baki öðrum kammerverkum has frá þessum tíma, t.d. hefur hver þeirra hljómað aðeins einu sinni í Kammermúsíkklúbbnum  en Es-dúr píanókvintettinn op. 44 sex sinnum. Strengjakvartettarnir teljast þó merkilegir, því auk þess að vísa á ýmsa vegu til baka til Bachs og hinna þriggja jöfra þessa forms, þykja þeir vísa framávið til Brahms og jafnvel Schönbergs sem báðir voru aðdáendur Schumanns.

Johannes Brahms taldi sig hafa lokið ævistarfi sínu sem tónskáld, þá orðinn 58 ára, þegar hann kynntist klarinettuleikaranum Richard Mühlfeld sumarið 1891 og heillaðist svo mjög af leik hans að hann samdi fyrir hann tríó (op. 114) og kvintett (op. 115); síðar samdi hann tvær sónötur (op. 120) til viðbótar. Kvintettinn var frumfluttur í nóvember sama ár af Mühlfeld og Joachim-kvartettnum og vakti þá slíka hrifningu að Adago-kaflinn var klappaður upp. Á þessum tima geisuðu deilur fylgismanna Wagners og Brahms sem ákafast, og Wagneristinn Georg Bernard Shaw (1892) valdi Brahms og kvintettnum hin hæðilegustu orð — sagði að óumdeilanlegir feikna-hæfileikar Brahms með nótur líkist engu öðru fremur en hæfileikum Gladstones með orð: innihaldsleysi falið í málæði. Hve oft hafa krítíkerar ekki látið hleypidóma hlaupa með sig í gönur? — Klarinettukvintett Brahms er, ásamt með kvintetti Mozarts, eftirlæti klarinettuleikara. Hann er nú fluttur í níunda sinn í Klúbbnum, í fyrsta sinn af strengjakvartetti Björns Ólafssonar og Agli Jónssyni klarinettuleikara 1967, sennilega hans svanasöngur – Egill lést árið 1971.


                                                                               Sig.St.

Richard Mühlfeld eftir Adolph Menzel