Um efnisskrána:

 

Bedřich Smetana (1824-1884) er einn af merkisberum rómantískrar, þjóðlegrar tónlistar á 19. öld og af þjóð sinni jafnan talinn faðir tékkneskrar tónlistar. Píanóverk, óperur og hljómsveitartónlist fylla mestan hluta verkaskrár hans og þar kveður jafnan við sterkan, þjóðlegan tón. Kammerverkin sem Smetana lauk við eru hins vegar fá: tveir strengjakvartettar, tvö stykki fyrir fiðlu og píanó og píanótríóið í g-moll. Allt eru þetta verk sem oft eru flutt og hljóðrituð enda viðurkenndar öndvegistónsmíðar. Nokkur kammerverk Smetanas eru aðeins til í brotum eða uppkasti og önnur hafa glatast. Tríóið var samið á tímum mikilla erfiðleika í Smetana-fjölskyldunni. Smetana-hjónin höfðu verið gift í sex ár og eignast fjórar dætur, þrjár þeirra létust og sú elsta þeirra, 5 ára að aldri, í september 1855. Auk þessa átti tónskáldið við sálræna erfiðleika að stríða. Upp úr þessu umhverfi sorgar og mótlætis varð píanótríóið til og er ekki að undra að yfir þessu ægifallega verki hvíli söknuður og tregi. Það var frumflutt í desember 1855 og lék tónskáldið á píanóið við það tækifæri. 

Valdemar Pálsson

 

Í tónleikaskrá 10. mars 1996 skrifaði Einar B. Pálsson um tríó Tchaikovskys:

 

„Hvers vegna hafið þér, Pyotr Ilyich, ekki samið neitt píanótríó? Ég sakna þess hvern dag, því að hér leikum við oft tríó, og ég harma, að ekkert slíkt skuli vera til af yðar hendi“. Konan, sem þannig spurði í bréfi, var Nadeshda von Meck, aðdáandi Tchaikovskys og vinur. Hann skrifaði henni: „Það er víst eitthvað við heyrn mína, sem veldur því, að ég þoli ekki að heyra spilað á píanó með fiðlu og selló. Mér finnst hljómarnir hrinda hver öðrum frá sér, og ég fullvissa yður um, að mér er það kvöl að hlusta á þess konar tríó. Þetta er eðlislæg staðreynd, sem ég get ekki skýrt. Ég veit vel, að til eru mörg tríó, sem eru ágætar tónsmíðar, en ég treysti mér ekki til að skrifa slíkt af sannri einlægni“.

 

En hálfu ári seinna varð breyting á. Elsti og nánasti vinur og stuðningsmaður Tchaikovskys, píanósnillingurinn Nikolai Rubinstein, andaðist í tónleikaferð og Tchaikovsky var harmi sleginn. Hann ákvað að semja mikið tónverk í minningu vinar síns. Og hann tilkynnti vinkonu sinni, að þrátt fyrir óbeit sína hafi hann ákveðið að glíma við tríóformið. Árangur þeirrar glímu varð eina píanótríó Tchaikovskys, sannkallað stórvirki og ein af merkustu tónsmíðum sinnar tegundar.

 

Nadeshda von Meck á nafn sitt í tónlistarsögunni. Hún var rík ekkja og heillaðist af tónlist Tchaikovskys. Hún skrifaði honum og hann henni og af því spratt vinátta og trúnaður, sem stóð í 14 ár. Hún veitti honum einnig fjárstuðning. Bréf þeirra eru ein helsta heimild, sem til er um Tchaikovsky.  Sérkennilegt er, að þau hittust aldrei, svo vitað sé.