Um efnisskrána:

 

Þýska óperutónskáldið og söngvarinn Johann Adolf Hasse steig sín fyrstu skref sem tenórsöngvari í Hamborgaróperunni árin 1718-19, sem þá var undir stjórn Reinhold Keisers.  Frá 1719-1722 söng hann við óperuna í Braunschweig og þar var fyrsta óperan hans frumflutt. Um haustið 1722 fór hann til Ítalíu til að fullnuma sig í óperugerð og nam þar hjá hinum fræga Nicola  Porpora. Þeim kom hins vegar svo illa saman að hann flúði á náðir hins aldna Alessandro Scarlattis, sem var síst verri kostur. Hasse hlaut mikinn frama á Ítalíu, margar fyrstu óperur hans voru sviðsettar í Napoli og vöktu hrifningu. Árið 1727 varð hann tónlistarstjóri við Scuola degl' Incurabili í Feneyjum, varð hljómsveitarstjóri við saxnesku hirðina í Dresden árið 1734 og hélt þeirri stöðu næstu 30 árin. Í Dresden var hann mikils metinn og gafst tækifæri til að ferðast víða um Evrópu til að stjórna óperum sínum.  Hasse var á sinni tíð vinsælasta opera seria-tónskáld  Evrópu. Ekki spillti það fyrir framanum að hann giftist óperusöngkonunni Faustinu Bordoni (1700-1781) árið 1730. Hún var ein mesta óperudíva 18. aldar og söng aðalhlutverk í a.m.k. 15 óperum eiginmannsins. Hasse samdi hátt á sjötta tug ópera, en kom við á öðrum sviðum og eftir hann liggja einnig trúarleg tónverk, konsertar og kammerverk. 

 

Tónskáldaferill Johann Friedrich Fasch átti fátt skylt við feril Hasses. Óperan var ekki á hans áhugasviði. Hann lærði á orgel hjá Kuhnau, fyrirrennara J.S. Bachs, í Tómasarskólanum í Leipzig og lagði einnig stund á lögfræði. Árið 1708 stofnaði hann Collegium Musicum í Leipzig, einn frægasta tónlistarfélagsskap 18. aldar, þar sem mörg þekktustu hljóðfæraverk Bachs voru frumflutt.  Fyrir félagið samdi Fasch ýmis verk, m.a. hljómsveitarsvítur í anda Telemanns. Hann gegndi ýmsum störfum, var m.a. organisti  og réttarritari í Zeitz,  starfaði um skeið í þjónustu Morzins greifa í Bæheimi og var hljómsveitarstjóri við hirðina í Zerbst.

Fasch samdi fyrst og fremst trúarleg verk, hljómsveitarverk og kammerverk. J.S. Bach hafði  tónlist Fasch í hávegum og skrifaði út fimm af hljómsveitarsvítum hans til eigin flutnings. Sonur Bachs, Carl Philipp Emanuel, átti einnig í fórum sínum ýmis trúarleg tónverk eftir Fasch.

 

Af fáum tónskáldum sögunnar fara aðrar eins sögur af hæfileikum og af Felix Mendelssohn. Frá blautu barnsbeini var það augljóst að listrænar gáfur hans voru langt umfram það sem vænta mátti. Hann lærði á píanó hjá móður sinni og níu ára gamall hóf hann nám í tónsmíðum. Þrettán ára gamall hafði tónlistarmaðurinn ungi þegar haldið fjölda tónleika og verið iðinn við tónsmíðarnar, samið m.a. píanókvartett og 13 sinfóníur fyrir strengjasveit. Fyrsta sinfónían fyrir fullskipaða sinfóníuhljómsveit leit dagsins ljós þegar hann var 15 ára, ári seinna kom fyrsta meistarastykki hans, Strengjaoktettinn op. 20 og í kjölfarið fylgdi forleikurinn að Jónsmessu-næturdraumi op. 21. Tvítugur að aldri stjórnaði Mendelssohn hinni gleymdu Mattheusarpassíu J.S. Bachs og árið 1835 varð hann aðalhljómsveitarstjóri í Gewandhaus í Leipzig og þar í borg stofnaði hann Tónlistarháskólann árið 1842. Hann starfaði einnig í Berlín þar sem hann var ráðinn stjórnandi tónlistardeildar Listaháskólans 1841. Mendelssohn var heimsborgari, ferðaðist víða og  dvaldi langdvölum m.a. á Ítalíu, og til Bretlandseyja kom hann tíu sinnum og stjórnaði eigin verkum. Á þessum ferðum sínum fékkst hann líka við aðra listgrein, málaralistina. Hann var mjög fær vatnslitamálari og teiknari og eftir hann liggur fjöldi myndverka. Af tónverkum Mendelssohns eru hvað þekktust Ítalska sinfónían, Strengjaoktettinn, óratorían Elijah, forleikurinn Fingalshellir og píanóverkið Ljóð án orða. Minna þekkt er kammertónlistin, enda þótt Mendelssohn hafi verið iðinn á því sviði sem öðrum.  

 

Valdemar Pálsson