Um efnisskrána:
Eftir andlát Mozarts samdi ekkja hans, Constanze, við útgefandann Johann André um kaup á handritum tónskáldsins. Hann hófst handa við skrásetningu verkanna en lauk aldrei við verkið. Hins vegar varð vinna Andrés Ludwig von Köchel að gagni þegar sá síðarnefndi gerði heildarskrá yfir tónsmíðar Mozarts, sem nefnd var Köchel Verzeichnis (KV eða bara K). Köchel raðaði tónverkum meistarans í tímaröð sem byrjar á Menúett í G dúr K 1 (1761) og endar á Requiem K 626 (1791). Árið 1799 gaf André út „Trois Quatuors pour clarinette, violon, alto & violoncelle, composés par W.A. Mozart œuvre 79me“. Af þessum þremur kvartettum eru tveir sem byggðir eru á fiðlusónötum (K 378 og K 380) og sá þriðji er útsetning á Píanótríóinu K 496. Ólíklegt þykir að útsetningarnar séu eftir Mozart, en útgefandinn André sterklega grunaður um að hafa framið verknaðinn. André þótti nokkuð liðtækur tónlistarmaður og hvað varðar Klarínettukvartettinn K 378 (317d) þá er útsetningin laglega unnin og jafnvægi milli radda eins og best verður á kosið. Ekta kammermúsik.
Þótt Mozart hafi fengist við Lieder-formið alla starfsævi sína, fyrsta ljóðalagið samið 1768 og það síðasta 1791, þá skipa ljóðasöngslög Mozarts ekki veglegan sess á efnisskrám ljóðasöngvara nú á dögum og hafa reyndar aldrei gert. Þeim mun ánægjulegra er að fá tækifæri til þess að kynnast tveimur þeirra á þessum tónleikum. Lied der Trennung K 519 var samið árið 1787 við ljóð eftir K.E.K. Schmidt nokkurn. Í ljóðinu, sem er 18 erindi (á tónleikum kvöldsins eru flutt 7 þeirra), er skáldið illa haldið af ástarsorg, hjartað brostið og engin úrræði í sjónmáli. Abendempfindung an Laura K 523 er einnig samið árið 1787. Hér er Mozart eins og hann gerist innilegastur. Lagið er ótvírætt snilldarverk í einfaldleika sínum. Hugurinn leitar til Liedermeistarans Schuberts, sem hefði verið fullsæmdur af þessari perlu.
Píanókonsertinn K 413 var saminn á árunum 1782-3, Hann er einn þriggja konserta (K 413-415) sem marka upphaf „stóru“ píanókonserta Mozarts. Þríeykið samdi Mozart fyrir sjálfan sig til flutnings á áskriftartónleikum í Vínarborg. Í bréfi til föður síns segir Mozart um konsertana: „ ... þeir feta hinn gullna milliveg milli þess að vera of auðveldir og of erfiðir. Þeir eru afar glæsilegir, ómþýðir og látlausir, án þess þó að vera bragðdaufir ...“. Húmorinn var aldrei langt undan hjá Mozart. Stundum gat Mozart verið hagsýnn. Hann vissi, að meðal aðalsins þótti það sjálfsagt að vera liðtækur á eitthvert hljóðfæri og með því að útsetja hljómsveitarverk fyrir kammerhópa gat hann aukið söluna á nýjum verkum til muna. Sem varð raunin. Útgáfu konsertana K 413-415 í kammerútgáfu og hljómsveitargerð auglýsti hann í janúar 1783. Verslunin fór fram í litlu íbúðinni hans á þriðju hæð í Herberstein‘sche Haus nr. 437 – og gekk vel.
Kammerútgáfa Píanókonsertsins K 413 fyrir einleikspíanó og strengjakvartett er konsert, ekki píanókvintett. Píanóröddin er óbreytt frá frumgerðinni, og heldur einleikshlutverki sínu gagnvart strengjaleikurunum fjórum, sem eru þá smækkuð mynd af hljómsveit upprunalegu gerðarinnar.
Strengjakvartettar Bartóks eru samdir á 30 ára tímabili frá 1909-1939 og eru því lykilverk í sköpunarverki hans. Þeir spanna nánast allar hliðar á þróun Bartóks sem tónskálds allt frá síðrómantískum og impressíónískum áhrifum til þeirrar sjálfstjáningar sem einkennir sjötta kvartettinn. Bartók lauk við Strengjakvartett nr.1 árið 1909 en fyrstu hugmyndirnar að verkinu fékk hann sumarið 1907, er hann kynntist og varð ástfanginn af fiðluleikaranum Stefi Geyer. Ástin var hins vegar ekki endurgoldin og sambandinu sleit hún sumarið eftir. Sú erfiða reynsla varð uppsprettan að Fiðlukonserti nr. 1 og hafði einnig veruleg áhrif á innihald fyrsta strengjakvartettsins. Verkið byrjar á óljósum hendingum sem gætu minnt á síðustu kammerverk Beethovens, en tónmálið er að sönnu framsækið. Undir lok verksins ræður kröftugur þjóðdansinn ríkjum. Hér var Bartók greinilega byrjaður að nýta sér hinn þjóðlega arf Ungverjalands og annarra þjóða í Austur-Evrópu og á Balkanskaga, en þjóðlagasöfnun hafði hann byrjað nokkrum árum áður í félagi við vin sinn Zoltán Kodály. Fáum tónskáldum hefur tekist að nýta sér hið þjóðlega í tónlist sinni á eins ferskan hátt og Béla Bartók. Hér er tjáningin tæpitungulaus.
Valdemar Pálsson