Um efnisskrána
Albert Roussel var samtíðarmaður Ravels og hefur af einhverjum ástæðum orðið undir í harðri samkeppni við þann mikla snilling. Hann var á sínum yngri árum sjóliðsforingi í franska sjóhernum en samhliða námi í herskóla í Brest hafði hann einnig stundað píanónám. Einnig sýslaði hann snemma við tónsmíðar og lauk við þær fyrstu á löngum sjóferðum til Austurlanda fjær. Hann hætti í sjóhernum 1893 og helgaði sig alfarið tónlistinni upp frá því, stundaði tónsmíðanám hjá Vincent d‘Indy og Eugène Gigout i Schola Cantorum í París. Árið 1902 var hann orðinn prófessor í tónsmíðum við þann skóla og meðal nemenda hans voru ekki minni spámenn en Varèse, Satie og Martinů.
Áhrifa frá Ravel og impressíónismanum gætir í fyrri verkum Roussels, t.d. í þekktasta verki hans, hinu litríka „Le festin d‘araignée“ (1913), en hann fór síðar sínar eigin leiðir og nálgaðist frekar nýklassíkina í seinni verkum sínum eins og heyra má t.d. í „Bacchus et Ariane“ (1931).
„Sérénade op. 30“ er kvintett fyrir óvenjulega hljóðfærasamsetningu, strengjatríó, flautu og hörpu og er eitt nokkurra vinsælla flautuverka tónskáldsins. Þar má nefna „Deux poèmes de Ronsard“ fyrir söngrödd og flautu (1924), „Joueurs de flûte“ fyrir flautu og píanó (1924) og Tríó fyrir flautu, víólu og selló op. 40 (1929).
Hinn franski Marcel Tournier var virtur hörpuleikari í heimalandi sínu. Hann var nemandi Alphonse Hasselmans í hörpuleik við Tónlistarháskólann í París. Tournier var margverðlaunaður í list sinni og hlaut m.a. hin eftirsóttu Prix de Rome-verðlaun fyrir tónsmíðar 1909. Hann varð arftaki Hasselmans er hann varð prófessor við Tónlistarháskólann í París og kenndi tveimur kynslóðum hörpuleikara. Einnig sinnti hann einleikaraferli sínum á hörpu. Einn nemenda Tourniers var Nicanor Zabaleta. Eftir Tournier liggja allmörg tónverk og í mörgum þeirra kemur harpan við sögu, og svo er einnig um „Suite op. 34“
Verk André Jolivets, „Chant de Linos“, er án efa eitt þekktasta flautuverk seinni tíma. Það var samið 1944 og ætlað til notkunar sem verkefni í einleikarakeppni (morceau de concours) við Tónlistarháskólann í París. Efni þessa stutta verks er tekið úr forngrískum goðsögnum um Línos, þann sem skapaði hljóðfallið og laglínuna. Hann etur kappi við Apollo í hljóðfæraleik, en lýtur í lægra haldi fyrir goðinu. Verkið er til í 2 gerðum, annars vegar fyrir flautu og píanó og hins vegar fyrir flautu, strengjatríó og hörpu.
Líkt og Roussel, var Jean Cras sjóliðsforingi að atvinnu en ólíkt Roussel var Cras alla tíð í hernum. Auk þess að vera tónskáld, stærðfræðingur, vísindamaður og uppfinninga-maður. Honum eru eignaðar merkar nýjungar í siglingatækjum, m.a. snúðáttavitinn (gyrocompass). Tónsmíðar stundaði Cras í hjáverkum, hvattur áfram af vini sínum, tónskáldinu Henri Duparc, sem hafði mikið álit á Cras. Í tónlistinni sótti hann innblástur til heimahaganna á Bretagne-skaga, til Asíulanda og síðast en ekki síst til sjóferðanna og hafsins, eins og glöggt má heyra í kvintettinum sem við heyrum hér í kvöld. Að eigin áliti var það helst kammertónlistin og sönglögin sem áttu hug hans. Hins vegar er það óperan „Polyphème“ (1922) sem er talin meistaraverk hans. Quintette (1928) er saminn fyrir sömu hljóðfæraskipan og Sérénade Roussels, afar fallegt verk, impressíónískt og rómantískt í senn og ábyggilega fallegasta verk sem nokkur sjóliðsforingi hefur samið.
Jean Françaix var einn margra þekktra nemenda Nadiu Boulanger í París. Hann var afar afkastamikið tónskáld og eftir hann liggur fjöldi tónverka af margvíslegum gerðum. Knappur stíll, léttleiki og kímni eru aðalsmerki þessa skemmtilega franska tónskálds. Að eigin sögn var markmið hans ávallt „að veita ánægju“ og ekki síður „að forðast eins og pestina meðvitaðar, vitlausar nótur og önnur leiðindi“. Quintette no. 2 fyrir flautu, hörpu og strengjatríó (1989) er engin undantekning. Það er gaman að lifa – a.m.k. í heimi Jean Françaix.
Valdemar Pálsson