Um efnisskrána

 Louise Farrenc (1804-1875) fæddist og ólst upp í listamannahverfi Parísar, dóttir myndhöggvarans J-E Dumont. Hún lærði á píanó hjá frægum kennurum, m.a. Hummel, og 15 ára að aldri hóf hún nám í tónsmíðum hjá Anton Reicha sem þá var helsti tónsmíðakennari tónlistarháskóla Parísar. Í skólanum kynntist hún flautuleikaranum Aristide Ferrenc og giftist honum 17 ára að aldri. Um skeið héldu þau tónleika víðs vegar um Frakkland en stofnuðu síðan tónlistarforlag í París, Éditions Farrenc, sem varð meðal fremstu slíkra í Frakkland næstu 40 árin. Á 4. áratugnum óx mjög frægð Louise sem konsertpíanista og þar kom að hún var skipuð prófessor í píanóleik við tónlistarskólann árið 1842 – þeirri stöðu, sem var ein virtasta slík staða í Evrópu, hélt hún í 30 ár. Fyrstu 10 árin var hún verr launuð en karlkyns samkennarar hennar, en eftir að nónett hennar op. 38 (fyrir strengjakvartett og blásarakvintett, 1842) hafði slegið í gegn urðu háskólayfirvöld að láta undan kröfu hennar um sömu laun. Á sinni tíð naut Louise Farrenc mikils álits í Frakklandi og víðar sem tónskáld, píanóleikari, tónlistarkennari og fræðikona. Þegar hún andaðist í september 1875 birti The New York Times um hana minningargrein, en strax þremur árum síðar þurfti fremsti tónlistarfræðingur Frakklands, F-J Fétis í Biographie universelle des musiciens, að velta því fyrir sér hvers vegna verk hennar væru gleymd og grafin. Ein helsta skýringin mun vera sú að hún samdi enga óperu, en það listform naut langmestra vinsælda meðal fransks almennings á 19. öld. Kunnáttumenn, m.a. Robert Schumann, töldu hana þó hvergi standa að baki karlkyns samtímatónskáldum sínum, ekki síst í píanó- og kammerverkum. Louise Farrenc samdi flestar tegundir tónverka nema óperur, en af 49 ópus-númeruðum verkum hennar eru einkum sjö sem erindi gætu átt á tónleika Kammermúsíkklúbbsins, fyrrnefndur nónett, tveir píanókvintettar (op. 30 og 31), þrjú píanótríó og tríó fyrir klarinettu, selló og píanó. Vaxandi áhuga á tónlistarsköpun kvenna undir lok 20. aldar má þakka það að verkum Louise Farrenc hefur verið bjargað úr djúpi gleymskunnar eftir meira en heila öld. Og liður í þeirri viðleitni var flutningur Kammermúsíkklúbbsins á píanókvintett hennar op. 30 í janúar 2015 og nú, í janúar 2017, hinn píanókvintett hennar op. 31.


Felix Mendelssohn (1809-1847) var undrabarn, gaf út sitt fyrsta tónverk 11 ára, en  ólíkt Leópold gamla Mozart og fleiri feðrum slíkra barna reyndi bankamaðurinn Abraham Mendelssohn ekki að gera sér barnið að féþúfu; þvert á móti lagðist hann frekar gegn því að sonurinn legði tónlistina fyrir sig en lét undan fyrir tilstilli Cherubinis, yfirmanni tónlistarháskólans í París. Reyndar var Mendelssohn ekki við eina fjölina felldur á andlega sviðinu: hann fékkst við myndlist, bókmenntir, heimspeki og sögu, og kunni mörg tungumál. Hann var kunnur píanóleikari, tónlistarstjóri og áhrifamaður í tónlist um sína daga. Árið 1829, þá tvítugur, flutti hann Matteusarpassíu Bachs í Berlín, nær óþekkt tónverk, og telja margir að sá atburður marki upphaf þeirrar Bach-vakningar sem enn sér ekki fyrir endann á. Mendelssohn samdi á stuttri ævi flestar gerðir tónlistar, en um kammertónlist hans segir alfræðibókin Grove að á því sviði verði enginn brestur á honum fundinn.

Óvenjuleg samsetning hljóðfæra í D-dúr píanósextettnum, ein fiðla, tvær víólur, selló, bassi og píanó – áhersla á djúpu raddir strengjafjölskyldunnar -- ljær verkinu sérstakan hljómblæ. Sextettinn hefur ekki verið fluttur áður í Kammermúsíkklúbbnum.

 

Sig. St.